Courmayeur - Champex - Chamonix
Um hádegi í Courmayeur var hitinn orðinn töluverður og ljóst að það stefndi í 1 stk. Jökulsárhlaup eins og það var í ár. Sökum þess og vegna þess að ég var ekki kominn í keppnisskap ákvað ég að vera rólegur í startinu til að ofgera mér ekki, Garmininn ákvað hinsvegar að gefast upp strax, fraus eftir að hafa leitað að tunglum í dágóða stund. Lagði af stað með 1.5 litra af vatni í Camelbag og i hendi var ég svo með 0.5 ltr flösku sem hægt var að strappa á hendina. (keypti græjuna í Chamonix og reyndist hún gull ígildi). Fyrsta brekkan tók töluverðan tíma að líða enda maður við mann alla leið upp á topp, en þarna tók maður eftir nokkrum aðilum sem maður rakst svo á út allt hlaupið. Þegar þangað var komið tók
við löng leið inn dal á góðum stíg. Fór frekar rólega til að komast yfir hæsta punkt leiðarinnar í góðu standi. Eftir snögga lækkun niður í Arnuva byrjaði hækkunin upp Grand col Ferret sem var alls ekki svo slæm, tók bara tíma. Röðin náði alveg upp á topp og giskaði ég á að ég væri númer ca. 200.
Upp á toppnum gat að líta niður stóran dal Val Ferret og nú tók við löööng brekka niður á við, oft með miklum halla. En að sama skapi var gaman að hlaupa þarna niður og í gegnum drykkjarstöðvarnar/bæina. Þessi leið var að mörgu leyti líkt Jökulsárhlaupinu, hlaupið með fram á og stígarnir grýttir en gott inn á milli(<5 mín tempó).
Þarna kláraði ég það sem var í Camel-bagnum en frá upphafi var þar um að ræða ca. 25°C heitan orkudrykk sem var ekki alveg að rokka í hitanum. Með því að fylla á litla brúsann á hverri stöð hafði maður nægt vatn og gat notið kuldans úr vatninu í smá tíma þar til lófinn hitaði það upp. Einn brúsi dugði að næstu drykkjarstöð og maður losnaði við aukaþyngd á bakinu.
Frá La Foule lá leiðin áfram niður skemmtilegan skógarstíg þar til hækkuninn upp í Champex-lac hófst. Það tók dágóðan tíma en gaman að koma í þennan svissneska bæ. Stoppaði lengst þarna af öllum stöðunum og fékk mér súpu og nóg að borða fyrir fjöllin tvö sem biðu. Töluvert skokk var fyrra fjallinu(skarðinu) en gangan þangað upp tók verulega á þolinmæðina, þetta var bara ekki að enda, zikk zakk upp hlíðina var prógrammið. Þegar komið var í fjallaskálann Bovine þá fór ég í langermabol og utanyfirstakk og setti upp ennisljósið.
Áfram var prikað upp um stund en svo meðfram fjallshlíð þar til lækkunin niður byrjaði. Það var zikk zakk alla leið niður í Trient með mjög bröttum hluta í lokin, fara varð varlega enda grjót og trjárætur og drulla til skiptist en þetta vandist fljótt í myrkrinu og var lítið mál.
Fyrir og í Trient rakst maður á fólk sem maður hafði séð fyrr í hlaupinu, alveg frá 2km. T.d. Frakkann með skólatöskuna sem ég fór nokkrum sinnum fram úr, konuna sem var búin að sauma viðbót við hlýrabolinn sinn, Frakkann sem búinn að skera úr fyrir hásininni á vinstri skónum sínum, og svo rauða Frakkann sem ég hljóp með yfir í Vallorcine.
Frá Trient lá leiðin beint upp næsta fjall og aftur þurfti maður að dunda sér við að komast á toppinn og svo niður aftur. Var með tveimur Frökkum (þ.m.t. þeim rauðklædda) þarna yfir og sá lítið til annarra, einn og einn fór þó fram úr. Í Vallorcine stoppaði ég í stutta stund með rauða Frakkanum og síðan héldum við út í nóttina til að klára síðustu 16km. Rauði Frakkinn var hinsvegar orðinn þreyttur og í staðinn kom Breti nokkur sem hljóp fram úr mér, ég fram úr honum og svo ákváðum við að klára þetta bara saman enda hraðinn svipaður. Ég hafði ekki hugmynd í hvaða sæti ég eða hvað tímanum leið, það einfaldlega skipti engu máli þarna í myrkrinu. Þarna átti maður nóg eftir til að hlaupa á 4:30 tempó en eftir allt hjakkið niður brekkur var allt orðið teygt í kviðarholinu og verkjaði mann því frekar mikið og hélt ekki lengi út.
Áfram var tölt niður í Argentiére sem er vinalegur bær 9km frá Chamonix og varð maður að passa sig á því að líta ekki sem svo á að hlaupið væri búið enda reyndist það vera þannig að
þrátt fyrir að kortið segði 200m hækkun og 400m lækkun var þetta á hinn veginn amk ætlaði síðasta brekkan aldrei að enda. Þessa síðustu kílómetra var maður orðinn dáleiddur af þessu litla ljósbletti sem var fyrir framan mann og auðvelt að hnjóta um á grýttum stígnum. Á leiðinni niðureftir fórum við fram úr nokkrum gangandi mönnum sem virtust hafa ofgert sér og gengu sem dáleiddir.
Áfram var haldið um stund þar til komið var að jeppaslóða og leiðin lá nú niður á við. Skyndilega kom vinstri beygja og trjágöng sem lágu niður að götu birtust.....YEESSS götuljós, malbik, kominn! Þar voru tveir á ferð og umsvifalaust tætti maður af stað og náði þeim og þá var bara ca. km í mark eftir götum Chamonix. Setti á fullt og sá einn líta við sem var labbandi töluvert fyrir framan, þegar hann sá mig hljóp hann af stað og en ég náði honum og reyndi um leið að draga Bretan með mér en hann var búinn á því. Síðan var slegið af fyrir markið (myndataka! ) og slappað af þegar í mark var komið, ég og einn Frakkinn skáluðum í bjór og eftir smá rabb við tvo Breta var skriðið heim á hótel sem var sem betur fer bara í 400m fjarlægð.
Flokkur: Lífstíll | 11.8.2008 | 22:33 (breytt 13.8.2008 kl. 13:35) | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar